Kirkjan

Bíllinn: Hverju þarf að huga að?

Af  |  0 Athugasemdir

Þegar kemur að ferðamáta eru ýmsir möguleikar í boði. Það hefur verið vinsælt undanfarin ár að leigja fornbíl fyrir daginn og nýta hann einnig í myndatökunni. Þetta getur komið vel út. Einnig er hægt að leigja limósínu, aðrar glæsibifreiðar eða jafnvel hestvagn. Sumar brúðir hverfa jafnvel aftur til fortíðar og koma ríðandi á hesti til athafnarinnar og sitja þá jafnan í söðli. Undanfarið hefur færst í aukana að óhefðbundnari ferðamátar séu notaðir t.d. traktor með tengivagni þar sem hefur verið komið fyrir sófa. Hafa þarf í huga að kostnaður við ferðamáta brúðhjóna getur verið töluverður. Því ákveða mörg pör að fá lánaðan fallegan bíl hjá fjölskyldu eða vinum eða kaupa fallega skreytingu á fjölskyldubíllinn. Slíkar skreytingar fást t.d. í blómabúðum og kosta ekki mikið. Gætið þess bara að festa þær vel á því í miklum vindi geta þær auðveldlega slitnað af, sérstaklega ef þær eru lausar.

bill2

Sá fararskjóti sem verður fyrir valinu þarf að vera hreinn að innan sem og að utan svo fatnaður brúðhjóna verði ekki skítugur. Ef bílstjóri fylgir ekki farartækinu þarf að huga að því hver á að keyra. Yfirleitt er um að ræða akstur með brúði til athafnar, með brúðhjón í myndatöku og svo í veisluna. Hafið í huga hvernig þið, brúðhjónin ætlið að komast heim eða á hótelið eftir veisluna. Munið að gera ráð fyrir bílstól ef börnin ykkar koma í bílinn eða fara í bíl hjá einhverjum öðrum. Að lokum viljum við biðja ykkur vinsamlegast um að gleyma ekki að skipuleggja það hvernig brúðguminn kemst í athöfnina- við höfum heyrt dæmi um það að hann sé óvart skilinn eftir heima!

Viltu sjá lista yfir þjónustuaðila? Smelltu hér

bill3