
Veislan
Gestabókin – Ótal möguleikar!
|Flestum finnst ómissandi að hafa gestabók í brúðkaupinu – Það er skemmtileg minning frá stóra deginum. Klassíski valkosturinn er auðvitað sá að hafa fallega bók með auðum síðum, en einnig eru margir farnir að velja óhefðbundnari kosti. Hér má sjá nokkrar hugmyndir að því hvernig hægt er að útfæra gestabókina.
Gaman er að láta gesti stimpla fingrafar sitt á blað og búa þannig til skemmtilega mynd sem hægt er að hengja upp.
Hvað með að láta gesti skrifa á bútasaumsteppi sem hægt er að kúra með í sófanum og rifja upp skemmtilegar minningar í leiðinni?
Annar skemmtilegur möguleiki er að láta útbúa púsl, t.d. með mynd af ykkur, og hver gestur skrifar svo á einn bita úr púslinu.
Vinsældir Polaroid-myndavéla hafa aukist að nýju og eru sérlega skemmtileg leið til að útbúa sniðuga gestabók – gestirnir geta svo skrifað kveðju á eða við myndina.
Önnur hugmynd er að safna fallegum steinum sem gestirnir geta skrifað á. Steinana má svo geyma í fallegum vasa eða skál á heimilinu.
Að lokum eru hér nokkur dæmi um sígildar gestabækur sem eru alltaf klassík.