Kirkjan

Hún hring minn ber…

Af  |  0 Athugasemdir

Langflest pör sem gefin eru saman notast við hringa sem tákn um loforð sitt um endalausa ást og trú. Hér þurfið þið að hugsa út fyrir stóra daginn því ólíkt öðru sem tengist útliti á brúðkaupsdeginum er þetta eitthvað sem þið ætlið að bera á fingrinum alla ævi. Því er yfirleitt öruggast að velja klassíska hönnun. Þetta er kostnaðarliður sem getur auðveldlega farið frá nokkrum þúsundum upp í milljón eða meira, allt eftir því hversu dýr málmur er í hringunum og hvort keyptir séu hringar með steini. Helstu málmar sem notast er við eru gull, hvítagull, silfur, palladium og stál en hönnun hringanna getur verið mjög fjölbreytt. Helsti steinninn er auðvitað demantur en yfirleitt eru giftingarhringar ekki með steinum. Hringarnir eru kostnaðarliður sem hægt er að klára af löngu fyrir brúðkaupið. Sum pör ákveða að setja upp trúlofunarhringa og notast svo við sömu hringa í brúðkaupinu sjálfu en þannig má lækka heildarkostnaðinn við brúðkaupið talsvert.

hringar3

Yfirleitt eru giftingarhringar hafðir á baugfingri vinstri handar, þeim megin sem hjartað er. Stundum eru trúlofunarhringar hafðir á hægri hönd og svo skipt yfir í brúðkaupinu en það eru engar fastar reglur um þetta. Það getur komið vel út að bæta einföldu giftingarbandi (steinlaus hringur) við trúlofunarhringinn.

hringar2

Reynsla okkar af gullsmiðum er að þeir eru yfirleitt allir af vilja gerðir til þess að koma til móts við óskir viðskiptavina sinna. Í þessu eins og öðru er gott að vera tímanlega. Mjög skemmtileg hefð er að láta grafa eitthvað persónulegt innan í hringana en passið ykkur þá að skrifa skýrt og greinilega niður þau orð sem þið veljið. Það er nauðsynlegt að fá upplýsingar um endingartíma málmanna og hvernig viðhaldi á hringunum er háttað. Oft er hægt að fá afslátt í skartgripaverslunum í gegnum starfsmannakort stéttafélaga eða allskonar klúbba en það getur borgað sig að leita leiða til að fá svolítinn afslátt þegar um háar upphæðir er að ræða.

hringar4