Kirkjan

Hrísgrjón eða ekki hrísgrjón

Af  |  0 Athugasemdir

Hrísgrjónakast hefur löngum verið iðkað í brúðkaupum hér á landi sem erlendis. Um er að ræða fornan sið þar sem viðstaddir kasta hrísgrjónum yfir brúðhjónin eftir athöfnina og óska þeim með því velgengni, allsnægta og frjósemi. Það eru nokkur umhugsunarefni þegar kemur að þessari hefð. Margir hafa heyrt það að ekki eigi að stunda þessa iðju þar sem fuglar geti étið hrísgrjónin sem tútni út í maga þeirra og þeir hreinlega springi. Þetta er ekki rétt – það verður í lagi með blessaða fuglana. Hins vegar hafa margar kirkjur bannað hrísgrjónakast (og blóma-/confettikast ) þar sem það verður sóðalegt og nær ómögulegt að hreinsa upp. Þetta er sérstaklega skiljanlegt þar sem eru mörg brúðkaup á dag. Jafnframt getur þetta beinlínis verið hættulegt í ákveðnum aðstæðum t.d. á sléttu gólfi eða flísum. Þá er mikilvægt að passa vel upp á gamla frænda á lakkskónum. Síðasti punkturinn sem brúðhjón ættu að hafa í huga er hvar hrísgrjónin lenda – ein minnisstæð setning sem frænka mín hálfhrópaði í sínu brúðkaupi var: „Þið vitið ekki hvert þetta fer…“. Það getur reynst fremur óspennandi að hafa hálfan desilíter af Tilda Basmati innan á sér allan brúðkaupsdaginn- sérstaklega ef brúðurin er í mjög flóknum fatnaði. Enn eitt sem vert er að hafa í huga er að við búum á Íslandi og gætum alltaf lent í því að veðrið setji strik í reikninginn t.d. sé of kalt fyrir gestina til að standa fyrir utan kirkjuna eða það sé mikill vindur sem feykir hrísgrjónum til og frá.

Hefðin er þó virkilega skemmtileg og ekki síst það sem hún stendur fyrir auk þess að hrísgrjónakastið og viðbrögð brúðhjónanna eru frábært myndefni. Það er gleði og hreyfing í myndunum sem skapast þegar gestirnir eru virkir. Ef hrísgrjón eru ekki málið í ykkar tilfelli eru ýmsir aðrir valmöguleikar í boði.

dbd689a70e6746f6f571df69fbd047ec

Það er ýmislegt annað sem hægt er að kasta yfir brúðhjónin, til dæmis litríkt confetti eða stórt glimmer. Annar valkostur væru rósablöð eða önnur blóm. Litríkt kökuskraut, fuglafræ og dúskar eru fleiri dæmi um eitthvað sem hægt væri að kasta yfir brúðhjónin og jafnvel eru til dæmi um að gestir kasti litríkum skutlum úr léttum pappír.

wedding-bubbles (1)

Vinsæll valkostur í sumarbrúðkaupum hér á landi eru sápukúlur. Ef notaðar eru sápukúlur er mikilvægt að blanda sápuna þannig að kúlurnar verði sterkar og góðar – annars lendir fólk í stökustu vandræðum með þessa þraut. Í haust- og vetrarbrúðkaupum er dásamlegt að vera með stjörnuljós eða flugelda.

sparklers

Eitt af því sem hefur ekki mikið sést hér á landi eru nokkurskonar veifur eða prik með áföstum litríkum borðum. Þetta er mjög skemmtileg hugmynd og kemur virkilega vel út á myndum. Önnur hugmynd er að gestir fái litlar bjöllur og klingi þeim þegar brúðhjónin ganga út. Einnig væri hægt að hafa tónlistaratriði, t.d. sönghóp eða tónlist af bandi, á tröppunum og gestirnir klappi í takt. Þetta myndi til dæmis skapa góða stemningu í sumarbrúðkaupi.

51bdb0c0dbd0cb1eee002819._w.540_s.fit_

Við mælum þó með því að fá einhvern til að laumast til þess að kasta nokkrum grjónum á ykkur, svona fyrir allsnægtir og frjósemi 😉