Undirbúningurinn

Boðskort

Af  |  0 Athugasemdir

Um leið og dagsetningin hefur verið ákveðin er ekki úr vegi að segja ykkar nánustu frá henni til að vera 100% örugg um að þeir sem standa ykkur næst taki daginn frá. Margir velja einnig að biðja fólk um að taka daginn frá með því að skrifa það í jólakortin, eða jafnvel útbúa Facebook-viðburð. Erlendis tíðkast það að senda sérstök „save-the-date“ kort í þessum tilgangi, en þessi siður hefur ekki náð mikilli útbreiðslu hér.

bodskort5

Mikilvægt er að senda boðskortin út tímanlega, ekki síst ef brúðkaupið er að sumri til þar sem margir gera ráðstafanir fyrir frí og annað snemma árs. Gott er að miða við 3 mánaða fyrirvara ef því verður við komið.

bodskort4

Þegar farið er að huga að útliti boðskorta er skemmtilegt að tengja það þema eða þemalit brúðkaupsins. Hafa skal í huga að boðskortið er fyrsti sýnilegi hluti brúðkaupsins fyrir gestina ykkar, ef svo má að orði komast, og skemmtilegt að útlit þess gefi vísbendingar um hvað er í vændum.

bodskort1

Munið að láta allar nauðsynlegar upplýsingar koma fram á boðskortinu: Staðsetningu og tímasetningu athafnar, staðsetningu og tímasetningu veislu, hvert á að boða forföll o.s.frv. Einnig er ráðlegt að setja klausu neðst um fyrir hvaða tíma fólk á að staðfesta komu sína. Ef það eru einhverjir sem hafa ekki svarað fyrir þann tíma er ekki úr vegi að hafa beint samband við viðkomandi svo að fjöldi gesta sé á hreinu.

bodskort3

Svo enginn misskilningur komi upp hvaða fjölskyldumeðlimum sé boðið í brúðkaupið er best annað hvort að skrifa nöfn þeirra sem er boðið á boðskortið, eða taka það á einhvern hátt fram að betra sé að koma börnunum í pössun, nú eða þá að börn séu velkomin.

bodskort2

Hægt er að láta útbúa frímerki með mynd að ykkar vali á heimasíðu Póstsins. Þetta er skemmtileg leið til að gera boðskortin enn persónulegri.

bodskort7