Fatnaður

Undirfatnaður brúðar

Af  |  0 Athugasemdir

Það er mikilvægt að velja undirfatnaðinn út frá því hvað getur hjálpað ykkur að líta sem allra best út í glæsilega kjólnum sem þið hafið valið. Í bandarískum bíómyndum eru konur í kynæsandi nærfatnaði undir brúðarkjólnum, tilbúnar í tryllta brúðkaupsnótt með eiginmanninum. Á Íslandi vita konur að það er mikilvægast af öllu að líða vel og geta notið sín og til þess er grundvallaratriði að vera í undirfatnaði sem manni líður vel í. Þið eruð allar dásamlega fallegar og það er ykkar einkamál hvað leynist undir kjólnum. Sumar konur kjósa sér að fara alla leið í samfellu með sokkabönd og háa nælonsokka en öðrum líður mun betur ef þær eru í góðum aðhaldsfatnaði sem heldur við magann, rassinn eða lærin. Hvað sem þið veljið, ekki láta utanaðkomandi pressu hafa áhrif á valið ykkar. Þið getið alltaf skipt yfir í eitthvað sexí þegar þið farið úr kjólnum. Veljið undirföt sem hjálpa ykkur að líta sem best út og sem ykkur líður vel í.

undirfot2

Gott er að fara í undirfataverslanir með mynd af kjólnum og fá ráðgjöf frá fagfólki. Fyrir kjóla sem eru hlíralausir eða með mikið af blúndu er nauðsynlegt að velja undirfötin vandlega.  Hægt er að fá brjóstahaldara sem eru hlíralausir eða eru límdir á brjóstin og henta því vel fyrir kjóla sem eru opnir eða gegnsæir í bakið. Nauðsynlegt er að máta kjólinn í undirfötunum um viku fyrir brúðkaupið. Ef þú ert í þunnum kjól skaltu athuga sérstaklega hvort sést í gegnum hann. Hafðu í huga að kostnaður við undirföt er oft meiri en fólk gerir ráð fyrir. Stundum þarf að gera nokkrar prufur áður en rétti brjóstahaldarinn finnst, kaupa þarf nokkrar sokkabuxur vara o.s.frv. Í sumum kjólum er gert ráð fyrir að þú sért í undirpilsi sem fyllir út í kjólinn og fullkomnar lögun hans. Munið að ef þið hafið ákveðið að  vera með kjól til skiptana (eitthvað sem við mælum hiklaust með), þurfa undirfötin líka að henta fyrir hann.

undirfot1

Heiðar Jónsson, Heiðar snyrtir, segir að ef þú ert í sokkabuxum með klofbót þá sé engin þörf á því að vera í nærbuxum, enda bæti þær bara við teygjum á fleiri stöðum. Sokkabuxur eru góður kostur að því leyti að þær veita aðhald og varna því að lærin nuddist saman undir kjólnum. Margir kjólar eru þykkir, eða úr gerviefnum og því getur ykkur orðið mjög heitt í kjólnum ykkar. Ef þið ákveðið að vera berleggjaðar eða í háum nælonsokkum er gott að vera með barnapúður í neyðarpakkanum til að setja á milli læranna ef þörf krefur. Annað sem er gott að hafa í neyðarpakkanum er fatalím. Þetta er eins og límband sem nýtist t.d. til að halda brjóstahaldaranum á sínum stað, líma blúndu við húðina eða jafnvel til að halda sokkabandinu á sínum stað.

undirfot3